Af hverju mótorhjól?

Þið sem lesið þetta eruð örugglega mótorhjólarar. En ég ætla samt að byrja á fullyrðingu, sem ykkur líkar eflaust ekki. Ég vil samt biðja ykkur að lesa þetta til enda.

Mótorhjól eru heimskuleg tæki.

Ég las einhvern tíma í einhverju mótorhjólablaði frasann “nobody needs a motorcykle”. Í samhenginu “mótorhjól er aðallega leikfang”. Sem er auðvitað nokkuð rétt, einkum á Íslandi. Ég meina, þú þarft að vera ákaflega “hard core” mótorhjólamaður til að nota hjól allt árið og ég held ég geti fullyrt að nánast allir mótorhjólarar hérlendis hafi hjólið sem skemmtun og hobby frekar en brúkshlut. En mótorhjól eru kúl,- og hættuleg. “even rode my motorcycle in the rain” söng Billy Joel sem rök fyrir að “I may be crazy”. Og, ef þú hjólar á Íslandi þá lendirðu í rigningu. Ég gæti farið næst út í töffaraímyndina sem fylgir leðurjökkum og mótorhjólum en læt það liggja á milli hluta. Það er efni í heila doktorsritgerð (sem hefur reyndar verið skrifuð, margoft). Alla vega; mótorhjól eru ópraktísk og heimskuleg tæki. En þau hafa samt alltaf heillað mig.

En, hver er ég svo sem til að tjá mig um þetta.

Ég er enginn mótorhjólajaxl. Keyrði skellinöðrur á sínum tíma, sennilega af því það var hið eina sem ég mátti keyra. Þá var ég staðráðinn í að eignast alvöru mótorhjól um leið og ég yrði sautján. En ég (kannski blessunarlega) er fæddur í nóvember og fékk því bílpróf um miðjan vetur, nokkuð snjóþungan, svo mótorhjólapróf var ekki tekið þann daginn.

Svo ég lenti í bílum og bíladellu og hjólin lágu eftir óbætt hjá garði. Bíllinn varð því aðal atriðið og í kapphlaupinu við að eiga og gera út flotta bíla var ekkert pláss fyrir mótorhjól. Ekki gat ég skipt bílnum út fyrir hjól og ekki hafði ég ráð á að eiga hvort tveggja. En þau áttu alltaf stað í huga mér. Svo liðu árin án þess að hjólaskorturinn truflaði mig, þó mótorhjólið heillaði mig alltaf og ég nyti þess alltaf að horfa á þau. Einhverju síðar, þegar komin var eiginkona og börn og allt það þá tók konan mín af mér það loforð að láta þessa mótorhjólaþrá liggja þar til dæturnar væru komnar til manns. Skynsamleg bón. Mótorhjól eru vissulega hættuleg. Svo ég ýtti mótorhjóladraumnum til hliðar, en kastaði honum aldrei. Ég beið.

Svo liða árin. Rúmlega fertugur, búið að ferma yngri dótturina og sú eldri í æfingaakstri til bílprófs, tók ég loks mótorhjólapróf og lagði af stað í að uppfylla þennan, þegar hér er komið, kvartaldar gamla draum. Ákvað, í krafti ætlaðs þroska, að byrja varlega og keypti að réttindum fengnum lítið og nett 500cc götuhjól. Bara svona til að sjá hvort ég fílaði þetta yfir höfðuð og færi mér þá síður að voða fyrsta sumarið mitt á mótorhjóli.

En nú varð ekki aftur snúið. Á næstu árum stækkuðu hjólin og hestöflunum fjölgaði hratt, en ég ætla ekki að fara út í það. Það sem ég upplifði þetta fyrsta mótorhjólasumar mitt á litla 500cc Kawasakiinu opnaði nefnilega augu mín fyrir þeirri þversagnarkenndu staðreynd (í ljósi þess sem áður sagði) að það er mikil skynsemi í því að eiga og nota mótorhjól, jafnvel á Íslandi.

Þegar ég, á fimmtugsaldri ók blautur á bak við eyrun á litlu hjóli út á göturnar opnaðist mér ný sýn á akstur og umferð. Hafandi ekið um á alls konar bílum í 25 ár fram að því fattaði ég hve hættuleg umferðin er. Eins berskjaldaður og maður er á hjóli var ég alltaf hæfilega hræddur innan um bílana, sem ég hafði aldrei verið í bíl. Ég upplifði meðal annars að vera keyrður niður á gatnamótum, bókstaflega, slapp með eitthvað af marblettum og nokkur brotin rif en í bíl hefði ég gengið óskaddaður frá atvikinu. Þetta kenndi mér að íhuga samferðamennina í umferðinni öðruvísi og betur en áður. Ég lærði að treysta engum nema sjálfum mér. Sem gerir þær kröfur til sjálfs þín að þú gerir allt rétt og sért traustsins verður.

Lærdómurinn: Þegar þú ert orðinn of öruggur með þig á fjórum hjólum, prófaðu tvö. Þú færð nýja sýn á umferðarumhverfið. Þú verður árveknari, skerpir athyglina og verður fyrir vikið betri ökumaður. Lærdómurinn af að vera hæfilega hræddur á mótorhjóli lifir nefnilega með þér þegar þú ferð aftur í bílinn.

Ég held, jafnvel veit, er alla vega sannfærður um að allir bílökumenn yrðu betri ökumenn ef þeir keyrðu líka mótorhjól, þó ekki væri nema örfáa sunnudaga á ári.

Svo, þó mótorhjól sé, eins og ég sagði í upphafi, heimskulegt tæki, þá er það líklega það gáfulegasta sem þú getur notað til að gera þig að betri ökumanni.