Daley Mathison er látinn

Í dag (mánudaginn 3. júní) lést hinn 27 ára gamli Daley Mathison í slysi í í Isle of Man TT kappakstrinum.

Hann missti stjórn á Penz13.com BMW S1000RR hjóli sínu nærri Snugborogh á þriðja hring af fjórum í opnunarkeppni vikunnar með fyrrgreindum afleiðingum.

Mathison hafði tvisvar orðið Evrópumeistari í rafdrifnum keppnishjólum (e. high powered electric race bikes). Hann keppti fyrst í Isle of Man TT árið 2013 og stefndi að því að keppa í öllum flokkum á þessu ári, þar með talið Isle of Man TT Zero flokknum, en hann komst á verðlaunapall í þeim flokki 2016, ´17 og ´18.

Keppnin var stöðvuð strax eftir slysið og staða keppenda eftir tvo hringi var látin gilda sem úrslit.

ACU (e. Auto-Cycle Union; samtök sem halda utan um mótorhjólakeppnir á Bretlandi) sendi frá sér eftirfarandi í kjölfar slyssins:

ACU Events Ltd. þykir leitt að staðfesta að Daley Mathison, 27, frá Stockton on Tees, Durham lét lífið í atviki sem varð í Superbike keppni í Isle of Man TT kappakstrinum í dag. Slysið varð við Snugborogh rúmum tveim mílum frá ráslínu á þriðja hring keppninnar.

Daley var reyndur ökumaður og ræsti 19. í keppninni í dag. Hann tók fyrst þátt í þessari keppni árið 2013 í flokki byrjenda (þeirra, sem ekki hafa keppt áður á þessari braut) og náði 5. sæti. Á ferli sínum í TT keppni náði hann meðal annars verðlaunasæti þrjú ár í röð, 2016, ´17 og ´18 í TT Zero rafmagnshjólaflokki. 2018 varð hann í 2. sæti, en það ár keppti hann í nafni Nottinghamháskóla.

Mathison varð í 13. sæti í Senior TT Race árin 2017 og 2018. Einnig náði hann 11. sæti í Superstock Race árið 2018 og náði í þeirri keppni hraðasta hringinn, 128,054 mílur/klst (206 km/klst), sem er jafnframt 34. hraðasti hringur í sögunni. Sama ár setti hann næsthraðasta hring allra tíma í TT Zero flokknum með meðalhraða upp á 119,294 mílur/klst (192 km/klst).

Mathison tók á ferli sínum þátt í 19 TT keppnum og lauk 14 þeirra, þrisvar stóð hann á verðlaunapalli og fékk 6 sinnum silfurviðurkenningu og 8 sinnum bronz fyrir eitt og annað sem verðlaunað er fyrir í keppni.

ACU Events Ltd. vill færa Natalie, eiginkonu Daleys, fjölskyldi hans og vinum sínar einlægustu samúðarkveðjur.

Grein þýdd af visordown.com