Er Yamaha að koma með forþjöppuhjól?

Vegna strangari mengunarreglna hafa framleiðendur bíla og mótorhjóla þurft að hugsa margt uppá nýtt til að minnka skaðlegan útblástur. Í mótorhjólum er mikilvægt að halda í kraftinn um leið og reynt er að lækka mengunarstuðulinn og ein leiðin til að gera það er að setja forþjöppu við mótorinn. Á níunda áratugnum reyndu margir japanskir framleiðendur að setja forþjöppu á hjól sín með ekkert svo góðum árangri.

Hjólin urðu dýrari í framleiðslu, kældu sig illa og glímdu við hik í inngjöf á lægri snúningi.

Kawasaki og Suzuki eru að hanna hjól með nýrri gerð forþjöppu og síðasti framleiðandinn til að bætast í slaginn er Yamaha ef marka má þessar einkaleyfisumsóknir. Hjólið er greinilega Yamaha MT-09 og einkaleyfið snýst að mestu leyti um ventil á forþjöppunni sem hleypir út lofti þegar þrýstingur verður of mikill. Á það að hafa áhrif á hvar Yamaha staðsetur mengunarkút hjólsins og að hann geti verið stærri en áður. Það verður gaman að sjá hvað fram vindur í slaginum um forþjöppurnar.