Mótorhjól í árekstri við fljúgandi brunnlok

Einar Magnús Magnússon er forvarnarfulltrúi Samgöngustofu en hann lenti í heldur óvenjulegu atviki á dögunum á KTM mótorhjóli sínu. Við skulum gefa Einari orðið og lýsa því sem gerðist: "Ég á ferð í mesta sakleysi á mótorhjólinu mínu á leið aftur til vinnu eftir smá skrepp þegar ég ók niður frárein af Bústaðarvegi niður á Kringlumýrarbraut til norðurs. Á undan mér fór svartur jeppi og þegar hann ók yfir brunnlok í brekkunni lyftist það skyndilega upp undan afturhjólinu jeppabifreiðar og flaug upp í u.þ.b. meters hæð áður en það skall af miklum þunga í jörðina. Þótt það sé nokkrir tugir kg kastaðist það og skoppaði fram og til baka fyrir framan mig.

Ég gat lítið fylgst með því þar sem ég þurfti að hafa mig allan við að lenda ekki ofan í opnum brunninum, beint fyrir framan mig. Þegar ég var loks komin framhjá honum skall brunnlokið af fullum þunga undir mótorinn á hjólinu með þeim afleiðingum að það skemmdist mikið. Það eru reyndar góðu fréttirnar því það munaði aðeins rétt tæpum 2 cm (miðað við ummerki eftir höggið) að brunnlokið lenti á hægri fætinum á mér og væri hann efni í kjötfars hefði það gerst.

Ég var á tímabili á framhjólinu einu því höggþunginn lyfti hjólinu upp að aftan. Ég náði að halda jafnvæginu þar sem hraðinn var ekki nema u.þ.b. 40 km/klst. Ég ók hjólinu upp á stíg til hliðar við veginn og fór strax út á götuna til að forða öðrum vegfarendum frá því að aka ofan í opinn brunninn. Á meðan hringdi ég í lögreglu. Slökkvilið kom einnig því öll olía lak af hjólinu" sagði EInar í færslu sinni á Facebook um atvikið. Hjólið er komið í KTM umboðið og fyrirsjáanlegur umtalsverður viðgerðarkostaður.

Einar vill áminna alla ökumenn og þá sérstaklega ökumenn bifhjóla að fara varlega "Pössum okkur á gervihnöttum sem geta fallið af himnum ofar því ég tel líklegra að eitthvað því um líkt gerist, frekar en þetta aftur" sagði Einar að lokum.

Nýlegt KTM hjól Einars er illa farið á mótor eftir áreksturinn.
Brunnlokið og olíuslóðin eftir hjólið talsvert frá brunninum sjálfum.

Brunnurinn án loksins umrædda.
Þessi mynd sýnir mjög vel hvar höggið er rétt framan við hægri fótinn. "Ef ég hefði verið með fótinn á bremsunni - sem ég var reyndar að fara að gera, þá hefðu tærnar geta sómt sér vel í krukku upp á læknadeild HÍ. Hefði líklega ekki þurft að taka þær af" sagði EInar.