Sögustund á sunnudegi - Langferðalangur heimsækir Ísland

Emilio Scotto hóf lengsta mótorhjólaferðalag veraldarinnar árið 1985 en hann var þá 31 árs og hafði aldrei farið út fyrir heimaland sitt Argentínu. Á næstu tíu árum átti hann eftir að ferðast 735.000 km á 10 árum, í gegnum flest lönd jarðarinnar, Ísland meðtalið. Eina landið sem meinaði honum inngöngu var Norður Kórea en löndin sem hann hefur heimsótt eru 279 talsins.

Undirritaður man mjög vel eftir því að hafa ekið við hlið hans á Breiðholtsbrautinni þegar hann heimsótti Ísland árið 1994, allt hjólið þakið límmiðum frá löndum sem hann hafði heimsótt. Þá var landið númer 173 í röðinni en hann kom hingað með Brúarfossi 4. apríl.

Hann lagði af stað frá Argentínu með aðeins 300 dollara í vassanum en treysti á góðvild fólks sem hann hitti sem reyndist honum vel.

Einnig fékk hann styrktaraðila eftir því sem leið á eins og Pepsi og Honda, en olíuframleiðandi á Spáni styrkti för hans til Íslands með það fyrir augum að prófa nýja mótorhjólaolíu við kaldar aðstæður. Ók Emilio alla leið upp að Langjökli til að prófa olíuna og setti kubbadekk undir hjólið til að komast lengra, en komst þó aðallega að því að Honda Goldwing 1100 hjólið hans, sem hann kallaði "Svörtu prinsessuna" var ekkert sérstaklega vel fallið til aksturs í snjó.

Hér má sjá nokkrar tölulegar staðreyndir úr för hans og hinnar tryggu prinsessu:

735.000 km samsvara næstum leiðinni til tunglsins og aftur til baka.

10 ár, tveir mánuðir og 19 dagar á ferðinni.

Í ferðinni fóru:

47.500 lítrar af bensíni.

1.150 lítrar af olíu.

12 rafgeymar.

86 hjólbarðar.

9 sæti

Á leiðinni:

Sex sinnum í fangelsi.

15 umferðalagasektir.

5 sinnum rændur.

Tvisvar skotið á hann.

Tvö umferðarslys.

Níu ákeyrslur, meðal annars á mann, dádýr, örn og bavíana.

11 vegabréf með alls 64 síðum.

Emilio Scotto á Honda Goldwing hjóli sínu í Reykjavík í apríl 1994.