Tölvugerð mynd af rafdrifnu Ducati

Rafmagnsbyltingin er ekki aðeins að hafa mikil áhrif á bílabransann heldur hjólaheiminn líka. Stór og gamalgróin merki eins og Harley-Davidson og Triumph eru að vinna í að koma slíkum hjólum á markað og við höfum flutt fréttir af rafvæðingu ítalska risans Ducati. Ducati mun byrja á rafskutlum og þá í samvinnu við kínverska framleiðandann Vmoto. Ducati hefur einnig verið í samstarfi við Energica sem framleiðir rafdrifin keppnismótorhjól. Þessi mynd sem fylgir fréttinni sýnir tölvugerða mynd sem að hönnuðurinn Aritra Das gerði af slíku rafhjóli sem byggir á útliti Panigale hjólanna. Það er einfaldlega kallað Elettrico og er mjög sportlegt svo ekki sé meira sagt, með snubbóttum afturenda og framljósum sem mjókka inná miðjuna. Líklega er þess ekki langt að bíða að við sjáum eitthvað þessu líkt frá Ducati.