Njáll Gunnlaugsson

Það hitta allir í mark með Svörtu pílu Husqvarna

Endrum og eins koma fram mótorhjól sem hrista upp í vélhjólaveröldinni, sjaldnar en margir kynnu að halda. Það er eins og mótorhjólaframleiðendur missi jafn oft úr gírskiptingar og hjólin sem þeir selja. Við þekkjum þetta ýmist á því að útgáfur hjólanna sem við elskuðum eru uppfærðar þangað til við þekkjum þær ekki lengur eða á því að við finnum fátt sem höfðar raunverulega til okkar.

Á þessu eru auðvitað undantekningar eins og stöku hjól sem við höfum séð síðustu ár; BMW HP2 og R nine T, Triumph Speed Triple (þessi með tvö kringlóttu framljósin) og Scrambler, Ducati Monster, Suzuki Hayabusa og Yamaha YZ400F svo eitthvað sé nefnt. Og núna Husqvarna Svartpilen 401.

Husqvarna fer sínar eigin leiðir en tekur í raun gamalkunnugt stef. Létt og lipurt mótorhjól sem býður góða blöndu af hagkvæmni, notagildi og aðgengileika. Það sem Husqvarna gerir hinsvegar svo vel með Svartpilen er að klæða þennan pakka í nánast ómótstæðilega nútímalegann búning með nýjustu tækni.

Hjólið er eitursvalt á að líta og lætur samkeppnina í þessum flokki líta út fyrir að vera ódýra eða gamaldags. Íhlutir Husqvarna eru hannaðir í þaula og lyfta gæðum hjólsins í efri flokk. Husqvarna á ef til vill auðveldara með þetta en flestir aðrir enda hefur fyrirtækið ekki hannað götuhjól í áratugi.

Einstakt flæði og samvinna

Það á enginn að þurfa að berjast við Svartpilen. Hjólið er lítið og nett og ökumaður situr vel uppréttur með útréttar hendur. Afar þægileg staða og ekki finnst fyrir þrengslum þrátt fyrir hógværar stærðir hjólsins. Þyngdin er um 150 kíló og því er um einstaklega lipurt hjól að ræða og hestöflin 43 duga vel þótt maður sé fljótur að hala þau inn í framúrakstri á þjóðvegahraða.

Svartpilen mætti segja að sé einskonar nútímalegur bræðingur af scrambler og götuhjóli. Það er auðveld að sjá fyrir sér eigendur nota þessi hjól út í eitt. Byrja á þeim sem götuhjólum og svo þegar þau eru aðeins farinn að láta á sjá að freystast þá í að setja á þau 60/40 kubbadekk og stefna á mölina til frekari skemmtunar. Hjólið er þó ekki sérstaklega ætlað til slíkrar notkunar.

Helsti styrkur hjólsins er innanbæjar þar sem það er létt og lipurt og vélin nær að skila sínu og vel það. Það er líka við þær aðstæður sem gæði hjólsins skína í gegn – öruggt flæði í gegnum allar beygjur og aksturseiginleikar sem draga fram það besta í ökumanni. Þetta er frábært hjól til að vippa til hægri og vinstri og tækla krappar beygjur og flóknar stefnubreytingar.

Búnaður hjólsins er ágætur en mestu skiptir að stjórntæki og lýsing eru nútímaleg og einföld í notkun. Það væri enda undarlegt ef sá búnaður tæki eitthvað frá þeim karakter sem hjólið hefur á aksturssviðinu.

Það er fátt hægt að gagnrýna við þetta hjól. Helst kemur það á óvart hvað það er fljótt upp á snúning og að rauðlínu. Speglarnir mættu hinsvegar vera betri en þeim er auðvelt að skipta út. Þetta verður hljóm eitt þegar horft er á smáatriði hjólsins, nútímalega lýsinguna í framljósi og afturljósi og önnur atriði sem hefur verið nostrað við.

Þetta er frábært hjól fyrir byrjendur sem lengra komna og gæti verið kjörið aukahjól fyrir þá sem eiga gjörólík mótorhjól.

Viltu auglýsa hjá okkur? 👉 Vinnum samana!

Hafðu samband