Ragnar Blöndal

Flott ferðahjól í minni kantinum

Ævintýra-ferðamennska (e. Adventure-touring) á mótorhjólum hefur fylgt hjólafólki síðan fyrsta hjólið rúllaði af stað fyrir margt löngu. Á þeim tíma má segja að allir túrar hafi verið ævintýri í sjálfu sér þar sem litið var um malbik og mölin réði ríkjum. Hjólin voru ekki með fjöðrun og dekk flest úr timbri, gegnheilu gúmmíi eða jafnvel úr málmi. Að komast á milli staða á svoleiðis græju hefur verið algjört ævintýri. Árið 1980 kynnti BMW til sögunnar R 80 G/S á alþjóðlegri sýningu í Köln. Það hjól er af mörgum talið fyrsta „alvöru“ ævintýra/ferða-hjólið en G/S stendur fyrir Gelande/Strasse sem bókstaflega þýðir Landslag/Vegur og hjólinu því ætlað að vera bæði götuhjól og torfæruhjól. Hjól eins og Honda Africa Twin og Yamaha XT600, síðar SuperTenere 750 og Suzuki DR voru til á þessum tíma þó margir vilji meina að BMW hafi framleitt fyrsta „Adventure“-hjólið. Ég reikna með líflegum umræðum um þetta atriði í hjólaklúbbum landsins.

Honda CB500X í sól og sumaryl. Vegurinn til El Teide.

Tekið í á Tenerife

Síðan þá hefur hellings vatn runnið til sjávar. Hjólafólk tók þessum hjólum opnum örmum og til varð alveg ný tegund af mótohjólum og mótorhjólamennsku. Í dag framleiða nánast allir ADV-hjól og ævintýra-ferðamennska er sennilega sú tegund mótorhjólamennsku sem vex hvað hraðast í heimi hér. Undirritaður smitaðist af þessari bakteríu fyrir einhverjum árum og er í dag alveg forfallin ADVmaður.

Það að geta hent útilegu græjunum á hjólið og brunað útí náttúruna í góðra vina hóp er bara geggjað svo ekki sé meira sagt. Því kom í raun ekkert annað til greina en að leigja ADV-hjól í stuttu fríi á Tenerife í lok mars eftir að hafa flúið kulda og vosbúð á landinu bláa. Undirbúningur fór að mestu fram í gegnum youtube með því að skoða aðstæður og ástand vega.
Vegurinn til Masca. Algjörlega mögnuð upplifun.

Þar áttaði ég mig á að 1200 GS væri sennilega ekki hjólið í þetta ævintýri fyrir mig (ég er ekki nema 70 kg) og ákvað að fara í eitthvað minna, léttara og meðfærilegra. Eftir talsvert gúgl og samskipti við hjólaleigu varð niðurstaðan að prófa hjól sem ég vissi ekki að væri til.

Eitt léttasta ævintýraferðahjólið

Há framrúðan veitir gott skjól og mælaborðið er vel læsilegt

Honda CB500X sem er sennilega minnsta og léttasta ADV-hjólið í búnkanum og að mér fannst hentaði einstaklega vel í fjallvegina á Tenerife. Honda CB500X leit fyrst dagsins ljós árið 2013 og var þá í raun bara úturdúr frá CB500F og CB500R. Hjólið sat lengi vel á 17 tommu dekkjum að framan og aftan þó að flest önnur ADV- og Dual Sport hjól væri með stærra hjól að framan (algengt að hjól séu á 18-19 tommu að aftan en 21 tommu að framan). Þetta gerði það að verkum að hjólið rúllaði ekki eins vel yfir hindranir og þau hjól sem voru með stærra framdekki og gerði það kannski að meira götuhjóli með ADV-ásetu (upprétt staða) en torfæruhjóli. Hondan sem undirritaður prófaði var lítð ekið 2017 módel og því enn á 17 tommu að framan en á malbikinu á Tenerife kom það ekki að sök.

CB500 X kemur með tösku á stélið sem aukabúnað.
Var eiginlega bara betra þar sem það svínlá í kröppum og þröngum beygjunum í Masca og upp að þjóðgarðinum við El Teide. Hjólið var snöggt upp og kom krafturinn svolítið á óvart þar sem 500 rsm þykja engin ósköp í dag en þessi tæp 50 hestöfl skiluðu sér frábærlega.

Á hraðbrautinni fannst mér samt eins og ég þyrfti einn auka gír til að halda í við umferðina á 100-120 km/klst. ABS-ið virkaði vel og kom að góðum notum þegar maður mætti 50 farþega rútum í blindbeygjum og þakkaði ég oft fyrir að vera á litlu hjóli í þessum aðstæðum frekar en stóru.

Framsvipurinn á CB500 X er kraftalegur með goggi sem einkennir hjól af þessari týpu.

Góður kostur fyrir byrjendur

Það reyndi ekkert á hæfni þess á möl í þessari ferð þar sem malbikið á Tenerife nær uppí 2.200 metra hæð yfir sjávarmáli (sem er uppfyrir Hvannadalshnjúk) og ástæðulaust að rúlla utan vegar eða á vegslóðum. Vegirnir þarna og malbikið er í raun efni í aðra grein en hér skulum við einbeita okkur að hjólinu. Honda CB500X er góður kostur fyrir byrjendur og jafnvel lengra komna sem vilja eiga þess kost að ferðast á vegum jafnt sem vegslóðum með farangur eða ekki. Hjólið hefur þróast talsvert síðan það fyrst kom fram og má nefna í því samhengi stærri tank (17 lítrar), hærra gler/vindhlíf, áfast bensínlok með hjörum, lengri fjöðrun að aftan og síðast en ekki síst 17 tommu dekk að aftan og 19 tommu að framan sem ætti að auðvelda slóðaakstur og torfærur. Fyrir hjólara sem eru 180 sm eða hærri þá er þetta hjól í minni kantinum því það er erfitt að standa á því nema þá með því að hækka undir stýrið kannski en á móti þá ættu flestir að ná auðveldlega niður og ekki þurfa að tippla á tánnum. Svo má einnig benda á að fyrir lengra komna þá hefur Rally Raid í Bretlandi tekið hjólið í fangið og breytt eins og þeim einum er lagið. Þar er komið alvöru ADV-hjól sem nú þegar er búið að prófa við erfiðar aðstæður (sjá youtube) og hentar vel á bæði malbik og möl.

Þjóðgarðurinn El Teide, Tenerife

Hentar fyrir A2 flokk

Það er svolítið merkilegt að hjá umboðsaðila á Íslandi þá er ekki verð að auglýsa eða flytja inn CB500X svo ég viti til en við Íslendingar höfum einhvern veginn alltaf horft á stærri hjólin og fundist allt undir 650 rsm of lítið. Það er vonandi að breytast með A-1 og A-2 réttindum en Honda CB500X fellur undir A- 2 og því frábært fyrsta hjól fyrir fólk í ferðahug og/eða ævintýraleit í sumar.

Undirritaður
Sjáumst á ferðinni og góða skemmtun.

Viltu auglýsa hjá okkur? 👉 Vinnum samana!

Hafðu samband